Marley „Saarland Sieger 2017 CIB ISCH Víkur Bob Marley“ stóð sig vel á nýafstaðinni Heimssýningu í Þýskalandi. Hann sýndi sig vel í hringnum eins og honum er einum lagið og hlaut fyrir það excellent. Hann hafnaði ekki í sæti en við erum samt ótrúlega stolt af honum og árangri hans í feikna sterkum meistaraflokki sem samanstóð af 16 hundum sem hafa sigrað tegundina út um allan heim og er þetta ómetanleg reynsla fyrir okkur öll að hafa tekið þátt í sýningu sem þessari. Ég hef farið út nokkrum sinnum að sækja hund til að fara með heim en í þeim tilfellum hef ég iðulega verið þannig staðsett að ég hef farið nánast beint frá erlenda heimili þeirra og út á flugvöll en í þessari ferð vorum við meira að ferðast innanlands í Þýskalandi og þá alltaf með hundinn með okkur og í hvert sinn sem við fórum eitthvað stakk það mig hvað við Íslendingar erum aftarlega á merinni með þá hluti er snúa að dýrahaldi. Það var alveg sama hvar við komum eða hvert við fórum alls staðar var Marley með okkur í för, sama hvort það var út að borða á kvöldin, rölta í búðir á daginn eða á pissustoppi á bensínstöðvum. Hann var velkominn sama hvert við fórum og enginn sem kippti sér upp við það í 6 hæða stórverslun þó hundur kæmi með okkur inn í lyftuna. Hótelið sem við vorum á í Leipzig var rétt við sýningarsvæðið og því mikið af hundum með eigendum sínum þar. Við borðuðum á hótelinu fyrsta kvöldið og að sjálfsögðu fór Marley með okkur niður að borða og lagðist prúður undir borð á meðan við borðuðum. Á tímapunkti um kvöldið hafa ábyggilega verið um 20 hundar á veitingastaðnum að borða með eigendum sínum og enginn setti út á það eða tók eftir því þar sem það heyrðist ekki í þeim og maður varð ekki var við að það væri hundur með fólkinu fyrr en það stóð upp til að fara eða settist niður til að borða. Samt var stanslaus umferð af hundum með eigendum sínum inn og út af hótelinu og var inngangurinn á hótelið rétt við veitingastaðinn. Eitt sem ég tók líka eftir í þessari miklu hundamenningu sem er erlendis er það að þú getur gengið um götur borga og setið á veitingastöðum óáreittur með hundinn án þess að allir séu að vasast í honum eða aðrir hundeigendur „að leyfa hundunum að heilsast“ eins og tíðkast í alltof miklum mæli hér. Hér æða menn í hunda hjá öðrum til að klappa þeim og biðja ekki um leyfi eða eru komnir með sinn hund beint ofan í þinn án þess að spyrja fyrst, til að leyfa þeim að heilsast. Úti spurðu allir, börn sem fullorðnir, hvort þeir mættu klappa hundunum og engum datt til hugar að rjúka yfir götu til að láta hundana heilsast heldur héldu bara sínu striki og gengu áfram. Þetta er eitthvað sem við Íslendingar mættu taka sér til fyrirmyndar.
0 Comments
Leave a Reply. |
Archives
May 2024
|