Þegar árið 2020 er kvatt er ekki annað hægt en að byrja á því að minnast tveggja góðra félaga til rúmlega 8 ára sem við kvöddum því miður í sumar. En júnímánuður bar mikla sorg með sér inn á okkar heimili en þá fóru bæði Marley og Chase yfir í regnbogalandið. Marley féll mjög skyndilega frá 1. júní og Chase kvaddi okkur 25. júní. Marley var rúmlega 8 ára þegar hann fór en Chase var orðinn rúmlega 12 ára en hann hafði þó eingöngu verið hér hjá okkur í rúm 8 ár. Hann var 4 ára þegar hann kom til okkar frá Bandaríkjunum en hann kom einmitt úr einangrun þegar Marley og systkinu hans voru 4 vikna gömul.
Tvær prinsessur fluttu að heiman á árinu en í upphafi árs fór hún Blue á nýtt heimili. Hún datt svo sannarlega í lukkupottinn þar því hún sér ekki sólina fyrir nýjum eiganda sínum og hann ekki fyrir henni og ekki annað hægt að segja en samband þeirra hafi verið einstak strax frá fyrstu kynnum. Misty skrapp svo í covid heimsókn til Karenar okkar og Hlyns og er hún búin að hreiðra vel um sig hjá þeim og eru þau búin að byggja henni dásamlegt heimili. Seinni part sumars fjölgaði svo tímabundið á heimilinu þegar hinn einstaklega ljúfi, góði og gullfallegi Fayro kom í heimsókn til okkar frá Króatíu. Hann mun að öllum líkindum dvelja hjá okkur fram á vor og mun vonandi skilja eftir sig nokkra gullmola hér á landi. Fayro er fæddur í Bandaríkjunum en eigandi hans er Marko vinur okkar í Króatíu sem er jafnframt ræktandinn hennar Mistyar. Eins og gefur að skilja fór lítið fyrir sýningum þetta árið. Fjögur Draumabörn tóku þátt í einu sýningu ársins hjá HRFÍ og stóðu þau sig með sóma á sinni fyrstu og einu sýningu í ungliðaflokki. Þau Hekla, Kvika, Esja og Stormur fengu öll excellent og fallegar umsagnir frá dómaranum. Þær systur fengu allar meistaraefni og hafnaði Hekla í 4 sæti í keppni um bestu tík tegundar ásamt því að verða besti ungliði tegundar. Við fórum með systurnar saman í ræktunarhóp og gerðu þær sér lítið fyrir og urðu besti ræktunarhópur tegundar. HRFÍ stóð síðan fyrir Match Show (útsláttarkeppni) í júní og hin 14 mánaða gamla Hekla var þar okkar fulltrúi í unghundaflokki 9-24 mánaða og komst hún í undanúrslit en alls voru 49 hundar af öllum tegundum skráðir til leiks í hennar flokk. Aðrir Víkurhundar stóðu sig vel í hinum ýmsu verkefnum á árinu. Sumarið í ár var ferðasumarið mikla á Íslandi og gerðust þau mörg hver landshorna flakkarar, eignuðust systkini, fluttu á ný heimili en fyrst og fremst áttu þau góðar stundir með sínu allra besta fólki við hin ýmsu verkefni og voru eigendum sínum tryggir og traustir félagar. Því miður voru þeir félagar Chase og Marley ekki einu meðlimir Víkurfjölskyldunnar sem kvöddu okkur á árinu en þau Bósi, Smali, Týr, Fróði og Zeta fóru öll yfir í regnbogalandið til mömmu sinnar. Það er alltaf erfitt að kveðja góðan félaga en þá er nauðsynlegt að vera þakklátur fyrir og ilja sér á öllum þeim góðu minningum sem við og eigendur þeirra eigum af þeim og það er svo sannarlega af nægu að taka þar. Við erum þakklát fyrir alla einstöku gullmolana sem hafa fæðst okkur í gegnum árin eða komið inn í líf okkar með öðrum hætti. Við erum jafnframt þakklát fyrir öll þau frábæru heimili sem þau búa á, fyrir trausta og góða ræktendur erlendis og síðast en ekki síst fyrir þann frábæra hóp af sýnendum sem eru í þessu með okkur því án ykkar allra væri þetta alls ekki hægt og hvað þá svona skemmtilegt. Takk öll fyrir árið og hlökkum til nýs árs með ykkur og þá fáum við vonandi að hitta ykkur oftar og knúsa ferfætlingana ykkar.
1 Comment
|
Archives
May 2024
|