MDR1 MDR1 eða Multi-Drug Resistance 1 er eitthvað sem við Aussie eigendur þurfum að vita hvað er og hvaða áhrif það getur haft á hundana okkar. Það er oft talað um að hundar séu hreinir, berar eða sýktir og ef þeir eru sýktir geta þeir sýnt mikil ofnæmisviðbrögð við Ivermectin og ýmsum öðrum lyfjum. Þeir sem eru svokallaðir berar geta jafnframt sýnt ofnæmisvibrögð því er öruggara að meðhöndla þá eins og þeir séu sýktir. Ivermectin er meðal annars í ormalyfinu sem við gefum hrossunum okkar og getur það kallað fram ofnæmisviðbrögð. Ef sýktur hundur innbyrðir þessi lyf geta ofnæmisviðbrögðin leitt þá til dauða ef ekki er brugðist við í tíma. Hér og hér er hægt að sjá nánari útskýringu á MDR1 og hvaða lyf ber helst að varast. Hér má einnig sjá grein inn á ASHGI þar sem því er velt upp hvort eigi að rækta undan tveimur hundum með stökkbreytta genið eða ekki en sitt sýnist hverjum um það.
NBT NBT eða Natural Bob Tail nefnist það þegar hundar fæðast skottlausir eða ef einn lið eða fleiri vantar í skottið þannig að það er ekki í fullri stærð við fæðingu. Eingöngu berar að skottlausa geninu, hundar fæddir skottlausir, geta eignast afkvæmi sem eru skottlaus. Þumalputta reglan er sú að þegar þú parar tvo hunda með skott fæðast öll afkvæmin með skott, þegar þú parar skottlausan hund og hund með skott er ca. 1/2 afkvæmanna skottlaus og ef þú parar tvo skottlausa hunda saman er um 2/3 afkvæmanna sem fæðist skottlaus. Í Bandaríkjunum, Chile, Frakklandi, Ungverjalandi og fleiri löndum eru flestir hvolpar stífðir við fæðingu. Hér á Íslandi og í nánast allri Evrópu eru skottstífingar bannaðar.
Hvernig erfast litirnir og hvaða lit fæ ég við pörun Til að eiga möguleika á að fá yrjótt afkvæmi þarf annað foreldrið að vera yrjótt en ef við pörum saman lit og lit fáum við eingöngu lit, rautt og/eða svart, eftir því hvort við notum rauðan einstakling eða einstakling sem er beri að rauða litnum (red factored). Það kallast að vera red factored þegar hundar eru berar að rauða litnum og er þá átt við svarta og bláyrjótta hunda sem bera rauða litinn og geta eignast afkvæmi í þeim litum á móti rauðum einstakling eða einstaklingum sem eru berar að rauða litnum. Hér má sjá einfalda mynd af því hvaða litir geta komið við pörun eftir því hvaða litir eru paraðir saman.
Yrjótti liturinn og heilsufar Í sumum löndum er stranglega bannað að para merle og merle og er það mikið gleðiefni að það verður bannað hér á Íslandi frá og með 1. maí 2017. Það geta verið ýmsir heilsufarsbrestir sem fylgja því að para merle og merle, eins og heyrnarleysi og blinda, og hér má sjá áhugaverða punkta um fylgikvillana. Ræktendur erlendis hafa mjög misjafna skoðun á því hvort eigi að para merle og merle eða ekki en það er með það eins og annað að sitt sýnist hverjum um það en það getur verið mikil áhætta fólgin í því þar sem þumalputtareglan er sú að 25% af gotinu getur orðið blint og/eða heyrnarlaust og eru m.a. nokkrir hópar á facebook með double merle eigendum og sögum þeirra.