Velkomin á heimasíðu Víkur ræktunar. Við erum lítil ræktun staðsett í Mosfellsdal, ræktum Australian Shepherd og erum við með 6 ástralska fjárhunda á heimilinu. Við erum meðlimir í Hundaræktarfélagi Íslands (HRFÍ) og uppfylla öll okkar got ræktunarreglur félagsins og eru þau skráð þar.
Maríanna Gunnarsdóttir og Ólafur Örn Ólafsson eru fólkið á bakvið ræktunina. Við höfum bæði átt hunda í gegnum tíðina en ást okkar á hvort öðru og tegundinni hófst 2010 og varð ekki aftur snúið eftir það. Hestar hafa jafnframt verið okkar ær og kýr í gegnum tíðina og bæði haft óbilandi áhuga á hestum og hrossarækt frá barnsaldri og stundað hrossarækt í háa herrans tíð. Hundaræktin er nú komin á skrið hjá okkur líka og á ræktun á þessum tveimur tegundum mjög vel saman þar sem það er svo margt sameiginlegt með þessu.
Markmið okkar í ræktun er að rækta móður- og föðurbetrunga. Að hundarnir séu heilbrigðir, fallegir, virðulegir, réttir, af miklum gæðum og með frábært geðslag. Við leggjum mikla áherslu á að hundarnir frá okkur séu góðir fjölskyldu- og heimilishundar. Okkur fæðast fá got en reynum að hafa þeim mun meiri gæði á bakvið þau til að kalla fram bestu eiginleika í hvorum einstakling fyrir sig í hvert skipti. Eitt af okkar meginmarkmiðum er að fá inn nýja einstaklinga til að bæta gæðin og rækta fá en vönduð got frá hverri tík og rakka. Við leggjum mikinn metnað í að finna réttu einstaklingana til að para saman, bæði gena- og útlitslega ásamt því að framrækta góða skapgerð og heilbrigði. Það er okkur jafnframt mikilvægt að auka fjölbreytni í genapolli tegundarinnar til að forðast of mikinn skyldleika. Því munt þú sjá fá got auglýst frá okkur en það er um að gera að setja sig í samband við okkur til að fá nánari upplýsingar um fyrirhugaðar tímasetningar á goti.
Þrátt fyrir að við séum ung ræktun í tegundinni eru 3 af 4 íslenskt ræktuðum alþjóðlegum meisturum fæddir okkur en Marley varð fyrsti rakkinn ræktaður á Íslandi til að ná þeim titli og Izzy önnur tíkin.
Okkar fyrsta got er fætt 2012 og árin 2013 - 2018 áttum við og/eða ræktuðum stigahæsta hund tegundar hjá Hundaræktarfélagi Íslands.
Á þessari síðu muntu finna upplýsingar um hundana okkar, tegundina, væntanleg got og nýjustu fréttir frá okkur.