Þegar við kveðjum árið 2021 er við hæfi að fara yfir hvað árið hafði í för með sér. Þrátt fyrir miklar takmarkanir gerðist margt skemmtilegt hjá okkur á árinu sem er að líða og við náðum að eiga margar gæðastundir með ferfætlingunum okkar, vinum og ættingjum. Það var mikið hvolpafjör hjá okkur á árinu sem hófst í lok febrúar þegar Sofie og Fayro eignuðust 6 yndislega hvolpa í Gimsteinagotinu, 4 tíkur og 2 rakka. Sofie stóð sig eins og hetja í uppeldinu og var virkilega gaman að fylgjast með henni ala þau upp og þau þroskast sem einstaklingar dag frá degi. Þau fengu öll yndisleg heimili þar sem þau eru elskuð til tunglsins og til baka. Súkkulaðigotið undan Kviku og Fayro fæddist svo í byrjun júní, 2 tíkur og 1 rakki. Því miður var fjórði hvolpurinn andvana tík sem ekkert var hægt að gera fyrir og var það í fyrsta sinn sem við höfum orðið fyrir því óláni að missa hvolp. Hin þrjú voru öll heilbrigð og mjög hraust og döfnuðu vel. Kvika stóð sig eins og herforingi í móðurhlutverkinu eins og hún á ættir til. Eins og Gimsteinarnir fengu þau öll dásamleg heimili þar sem þau eru elskuð út í eitt. Sýningahald var takmarkað á árinu en náðist þó að halda nokkrar sýningar á árinu og stóðu okkar fulltrúar sig ljómandi vel þar eins og alltaf og erum við óendanlega stolt af þeim öllum og þeirra árangri í hringnum á árinu. Jafnframt erum við þakklát eigendum þeirra fyrir að nenna að standa í þessu sýningarstússi með okkur því án þeirra væri þetta ekki hægt. Izzy sneri aftur í hringinn í ungum sýnendum í haust með Melkorku systir hennar Ylfu og tóku þær þátt í flokki yngri sýnenda við mjög góðan árangur. Það er yndislegt að horfa á þær saman í hringnum því þær skemmta sér svo vel saman og eru miklar vinkonur. Á næsta ári er Melkorka komin í eldri flokk ungra sýnenda og verður gaman að fylgjast með þeim vinkonum takast á við það verkefni saman. Aðrir Víkurhundar stóðu sig vel í hinum ýmsu verkefnum á árinu. Sumarið í ár einkenndist af ferðalögum innanlands hjá mörgum eins og síðasta sumar. Einhverjir fluttu á ný heimili með fjölskyldum sínum en þau áttu fyrst og fremst góðar stundir með sínu allra besta fólki og voru eigendum sínum tryggir og traustir félagar. Við erum þakklát fyrir alla einstöku gullmolana sem hafa fæðst okkur í gegnum árin eða komið inn í líf okkar með öðrum hætti. Við erum jafnframt þakklát fyrir öll þau frábæru heimili sem þau búa á hjá eigendum sem sjá ekki sólina fyrir þeim, fyrir trausta og góða ræktendur erlendis sem við getum alltaf leitað til og síðast en ekki síst fyrir þann frábæra hóp af sýnendum sem eru í þessu með okkur og eru svo miklu meira en sýnendurnir okkar því þær eru einnig traustir vinir okkar, því án allra ykkar væri þetta alls ekki hægt og hvað þá svona skemmtilegt. Takk öll fyrir árið og við hlökkum til nýs árs með ykkur öllum.
1 Comment
|
Archives
May 2024
|