Við urðum 4 vikna í dag og erum búin að fá ættbókarnöfnin okkar og erum alsæl með þau. Þemað í gotinu eru víkingar og fengum við nöfn eftir því.
Við höfum brasað ýmislegt á okkar stuttu ævi og er alltaf jafn magnað að sjá hvað hlutirnir gerast hratt. Tvífætta amma okkar gerði á okkur taugafræðilega örvun sem við kláruðum í viku þrjú og stóðum við okkur vel í henni. Í viku þrjú opnuðum við líka augun. Þegar við fórum að sjá og heyra opnaðist alveg nýr heimur fyrir okkur og við fórum að fara mun hraðar um. Þegar við urðum 3ja vikna fórum við að vera frammi í stofu og finnst okkur það geggjað gaman. Á viku fjögur fórum við að leika okkur við hvert annað og dót og hluti sem tvífætta amma okkar er mjög dugleg að setja inn hjá okkur. Mamma er algjör ofurmamma, hún mjólkar í okkur eins og herforingi og fórum við að smakka hrærða mjólk þegar við vorum 3ja vikna og fáum við að prófa blöndu af mjólk og fóðri í dag erum við mjög spennt að prófa það. Mamma er mjög dugleg að þrífa okkur og örva og finnst henni mjög gaman að leika við okkur eftir að hún er búin að gefa okkur að drekka og þrífa okkur. Við förum reglulega í hand- og fótsnyrtingu og finnst okkur mjög gott að liggja á bakinu á meðan klær eru klipptar og fá gott bumbuklór í leiðinni. Tvífætta amma okkar er byrjuð að kalla okkur strokufanga því við erum farin að ná að lauma okkur út úr hvolpagirðingunni inn í stofu þegar hún sér ekki til og hún er farin að svara því með því að loka hliðinu þegar hún fer af bæ og er það pínu bömmer fyrir okkur en við sofum hvort sem er svo mikið að við vorum fljót að fyrirgefa henni það. Við erum búin að hitta fullt af fólki og elskum við gott knús og klór og bræðum alla sem hitta okkur og hlökkum til að halda áfram að hitta fólk og kynnast nýjum hlutum.
0 Comments
Leave a Reply. |
Archives
May 2024
|