Í upphafi nýs árs er gaman að renna yfir síðasta sýningarár en síðasta sýning ársins 2016 fór fram um miðjan nóvember. Þegar við rennum yfir liðið sýningarár eru margar góðar minningar sem koma upp í hugann og verður þetta ár eflaust seint toppað hvað varðar velgengni á sýningum. En við áttum besta hund tegundar á 4 af 5 sýningum ársins og besta öldung tegundar á þeim öllum. 8 nýir titlar komu á hunda í okkar eigu og/eða ræktaðir af okkur, 3 alþjóðlegir meistarar, 2 íslenskir meistarar, 2 íslenskir öldungameistarar og 1 Reykjavík Winner 2016.
Chase var í topp formi allt árið sem skilaði sér í því að hann var 3 sinnum valinn besti hundur tegundar, BOB og 2 sinnum valinn besti öldungur tegundar. Varð besti öldungur sýningar í september, varð einu sinni í 4 sæti í besti öldungur sýningar, einu sinni í 4 sæti í tegundahópi 1 og sigraði einu sinni tegundahóp 1. Chase fékk sitt 4 CACIB í nóvember og er umsókn hans um alþjóðlegan meistaratitil, C.I.B. komin í ferli. Á septembersýningunni ávann hann sér þátttökurétt á Crufts 2017 og fékk þriðja og síðasta öldungameistarastigið sitt og varð því öldungameistari, ISVetCh. Þessi glæsilegi árangur hans á árinu var til þess að hann var heiðraður sem Stigahæsti hundur tegundar 2016 á uppskeruhátíð Fjár- og hjarðhundadeildar í lok nóvember.
Reese hefur einnig átt gott sýningarár en nú í öldungaflokki og tók hún þátt í fjórum sýningum á árinu þar sem hún varð þrisvar besti öldungur tegundar, hafnaði einu sinni í 3 sæti í besti öldungur sýningar og tvisvar í 4 sæti í besti öldungur sýningar. Ásamt því að verða besta tík tegundar á nóvembersýningunni þar sem hún fékk jafnframt síðasta öldungameistarastigið sitt og varð því öldungameistari, ISVetCh. Þessi glæsilegi árangur hennar á árinu var til þess að hún var heiðruð sem Stigahæsti Öldungur Fjár- og hjarðhundadeildar 2016 á uppskeruhátíð deildarinnar í lok nóvember ásamt því að vera 3 stigahæsti öldungur yfir allar tegundir.
Chase og Reese eru jafnframt fyrstu áströlsku fjárhundarnir til að verða íslenskir öldungameistarar en á sýningum frá og með 1. júní s.l. var hægt að ávinna sér öldungameistarastig og þarf 3 slík til að verða öldungameistari.
Marley er einnig búinn að gera góða hluti á árinu en hann náði í sitt fjórða og síðasta CACIB í júlí og er því umsókn hans um alþjóðlegan meistaratitil, C.I.B., í ferli. Hann er jafnframt fyrsti Aussie rakkinn ræktaður á Íslandi til að ná þeim árangri að verða alþjóðlegur meistari.
Í vor varð fjölgun á heimilinu þegar Gadsden „USCh Thornapple Don‘t Tread On Me“ bættist í hópinn. Hann kom út úr einangrun í byrjun maí og tók þátt í sinni fyrstu sýningu á Íslandi í júlí þar sem hann gerði góða sýningu. Þar var hann valinn besti hundur tegundar og náði sér í íslenskt meistarastig og varð þar af leiðandi íslenskur meistari, ISCh, ásamt því að verða Reykjavík Winner 2016, RW-16.
Izzy fór í sýningarhlé eftir febrúarsýninguna þar sem hún eignaðist 7 gullfallega hvolpa um miðjan maí. Hún kom síðan tvíefld inn á nóvembersýninguna þar sem hún varð önnur besta tík tegundar með sitt fjórða CACIB og því orðinn alþjóðlegur meistari eins og pabbi sinn og hálfbróðir og er hennar umsókn í ferli eins og þeirra.
Blue, „Víkur I Saw Her Standing There“, dóttir Izzyar sem við héldum eftir úr gotinu, tók þátt í tveimur sýningum á árinu, í flokki hvolpa 3 – 6 mánaða, og gekk henni vel á þeim báðum. Þriðja besta tík á fyrri sýningunni með heiðursverðlaun og á seinni sýningunni varð hún besti hvolpur tegundar, með heiðursverðlaun og 4 besti hvolpur sýningar 3-6 mánaða.
Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn okkar frá Frakklandi hún Melody, „Melody Time De La Vallée d‘Eska“, sem kom út úr einangrun í lok október stóð sig vel á sinni fyrstu sýningu í nóvember en hún varð önnur besta tík í flokki hvolpa 6-9 mánaða með heiðursverðlaun.
Boss varð fjórði besti rakki á nóvembersýningunni og stóð sig einnig vel á hinum tveimur sýningunum sem hann tók þátt í á árinu. Misty tók þátt í einni sýningu á árinu og gekk það vel.
"Smári" Víkur Harry Potter HIT varð íslenskur meistari, ISCh, á nóvembersýningunni, "Polar" Víkur I Got To Get You Into My Life varð besti hvolpur tegundar 3-6 mánaða á septembersýningunni og hafnaði í 4 sæti í besti hvolpur sýningar. Systurnar "Aska" Víkur Here Comes The Sun og "Askja" Víkur Twist and Shout stóðu sig líka vel á sýningum, fengu heiðursverðlaun í hvolpaflokki og fallegar umsagnir. "Loke" Víkur Icelandic All My Loving fór til nýrra eigenda í Noregi í byrjun október og mun væntanlega verða fulltrúi okkar á sýningum þar í framtíðinni.
Af öðrum Víkur hundum sem ekki tóku þátt í sýningum á árinu er allt gott að frétta, þeir eru uppteknir við að eiga góðar stundir með sínu besta fólki.
Allir okkar hundar eru á ProPac fóðri frá Pak ehf. og notum við Chris Christensen vörurnar frá 4 loppum í baðið og viljum við þakka báðum aðilum fyrir frábæra þjónustu við okkur.
Við erum einstaklega stolt af þessum árangri hjá okkar ungu og litlu ræktun sem hófst árið 2012 og höfum við átt og/eða ræktað stigahæsta hund tegundar 4 ár í röð. Nú þegar eru 3 einstaklingar ræktaðir af okkur orðnir íslenskir meistarar og 2 þeirra búin að ná þeim árangri sem þarf til að verða alþjóðlegir meistarar, C.I.B. Þessum árangri væri ekki náð án góðs samstarfs við topp ræktendur erlendis sem treysta okkur fyrir hundum af miklum gæðum.
Við viljum nota tækifærið og þakka öllum sýnendum, eigendum, ræktendum erlendis og ykkur öllum sem tóku þátt í að gera þetta ár svona frábært með okkur. Án ykkar væri þetta ekki hægt <3